top of page

Hlynur Elís

Í dögun friðarsúlu Johns Lennons fæddist fallegur drengur sem ákvað að berja heiminn augum stutta stund. Þótt honum hafi ekki verið veitt sú náð að vera hjá okkur lengi, þá setur líf hans og fráhvarf mark á okkur öll sem fengum af tilveru hans snert.

Hlynur Elís fæddist á afmælisdegi langa-langafa síns Elísar Gíslasonar, stór, kraftmikill og heilbrigður. Fjölskyldan beið komu hans með eftirvæntingu, sérstaklega stóra systirin tveggja ára og jókst spennan enn meira meðal ættingjanna, ekki síst hjá ungum frænkum og frændum, því ekki gátu þau heimsótt hann vegna þess faraldurs sem geisaði þá um heiminn. Sum okkar voru svo gæfusöm að fá að sjá hann í gegnum myndsamtöl, horfa í augun á honum og heyra hann kalla eftir meiri mat. Sex dögum eftir fæðingu var honum svo ekki hugað lengra líf. Hann var þó ekki tilbúinn að gefast strax upp og sýndi betri lífsmörk daginn eftir og fór með mömmu sína og pabba í stutta rússíbanareið í gegnum von og kvíða, en 10 daga gamall kvaddi hann þennan heim í fangi foreldra sinna.

Hlynssjóður

Foreldrar sem missa barn sitt í fæðingu eða skömmu eftir hana þurfa að takast á við margskonar áskoranir. Það reyndu foreldrar Hlyns Elísar, þau Lilja Eggertsdóttir og Guðlaugur Ingi Harðarson og ákváðu snemma að miðla af reynslu sinni og leggja sitt af mörkum til að gera barnsmissi annara léttbærari. 

Þau stofnuðu því Minningarsjóð Hlyns Elísar Guðlaugssonar, Hlynssjóð árið 2022, en hlutverk hans er veita foreldrum sem missa barn sitt í fæðingu eða skömmu eftir hana stuðning í formi fjárstyrks svo foreldrar geti leitað sér aðstoðar sálfræðings eða annars konar áfallahjálpar. Það er æði misjafnt í hvaða sjóði fólk hefur að leita og margir þeirra gera kröfu um að stuðningsaðilar uppfylli ákveðin skilyrði, en það hentar ekki öllum.

 

Starfsfólk Landspítala aðstoðar stjórn sjóðsins við að koma upplýsingum um sjóðinn til foreldra.

Sjóðurinn sækir sér fé með styrktartónleikum en leitar einnig eftir styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum.

Hlynssjóður er ekki hagnaðardrifinn og er allt starf unnið í sjálfboðavinnu.

Stjórn sjóðsins skipa:


Snorri Pétur Eggertsson
Kristín Sigurðardóttir
Nathalía Druzin Halldórsdóttir
Anna Hugadóttir
Lilja Eggertsdóttir

bottom of page